Vertu með í að rifja upp 50 ára sögu Norræna hússins

Vertu með í að rifja upp 50 ára sögu Norræna hússins

Norræna húsið ætlar að hafa opið hús á miðvikudagskvöldum þar sem gestum og gangandi er boðið að deila reynslu sinni úr húsinu og skoða gömul skjöl, sýningarskrár og ljósmyndir.

Á næsta ári eru 50 ár síðan Norræna húsið opnaði. Að gefnu tilefni viljum við líta til baka á liðna tíð og bjóða til okkar fólki sem notað hefur húsið og vill deila með okkur reynslu sinni og upplifun. Á miðvikudagskvöldum frá apríl til júní og í haust ætlar bókasafn Norræna hússins að opna skjalasafn hússins einn áratug í einu og rifja upp gamla tíma með gestum.

Það er fólkið sem skapar söguna. Til er fjöldinn allur af gömlum ljósmyndum, skjölum og sýningarskrám í kössum. Þessa kassa viljum við opna, skoða og greina hvaða saga og minningar finnast í þeim, skrásetja hvaða fólk er á myndunum og heyra hvernig það var að vera í Norræna húsinu á þeim tíma sem myndin var tekin. Þannig verða gögnin okkar verðmætari og við verðum margs vísari um fólkið og sögurnar sem húsið geymir.

Átt þú minningar úr Norræna húsinu?
Ef þú ert einn af þeim sem átt minningar úr Norræna húsinu hvort sem þær eru skemmtilegar, alvarlegar, spennandi eða vandræðalegar viljum við gjarnan fá að heyra þær.  Við viljum einnig taka söguna þína upp á myndband svo hún geti lifað áfram í skjalasafni hússins og orðið hluti af lifandi sögu hússins.  Vel valdar sögur munu svo verða hluti af afmælissýningu Norræna hússins á næsta ári.

Sjöundi áratugurinn og Vigdís Finnbogadóttir
Þann 5. apríl 2017 opnuðum við formlega skjalasafnið og buðum til okkar heiðursgesti frú Vigdísi Finnbogadóttur sem hefur verið tíður gestur í húsinu frá upphafi og eins og margir vita ólst upp í hverfinu og sá húsið vera byggt.

Hvernig fer þetta fram?
Öll miðvikudagskvöld frá kl. 19:00-21:00 opnum við kassa úr skjalasafni Norræna hússins frá ákveðnum áratug.

Við byrjuðum 5. apríl. Þemað fyrir apríl var sjöundi áratugurinn (1960+). Hafir þú eytt tíma í Norræna húsinu á sjöunda áratugnum, fylgst með byggingu þess og langar að segja okkur sögur frá þeim tíma eða hjálpa okkur að fara í gegnum myndir og gögn frá þessum tíma, ertu hjartanlega velkomin/n.

Við opnum nýja kassa í hverjum mánuði, einn áratug í einu.
Apríl: 1960+
Maí:1970+
Júní: 1980+
Júlí-ágúst er pása
September: 1990+
Október: 2000+
Nóvember: 2010
Í desember leyfum við okkur svo að spá um framtíðina og framtíðarhlutverk hússins.